Saturday, April 7, 2012

Laugardagur til leka

Mættir: annar rjómahópur af Afrekshópnum
Staður: nú, Laugardalslaug
Stund: geðveikt seint, 8:00

Mætingin í morgun var gott sem svipuð og í fyrradag. Nokkrir, sem mættu ekki í fyrradag mættu í morgun, afskaplega skömmustulegir. Ber þar að nefna sjaldséða hvíta hrafna eins og Beinhimnubólgu-Bjössa, Crossfit-Albert og Betu Bronz. Hins vegar voru margir sem mættu á fimmtudaginn sem mættu ekki í morgun. Þannig að þetta jafnaðist út.

Nú. Stóra kladdamálinu lauk í morgun. Danni ákvað að gerast vísindalegur (fyrir tilstilli Janusar sýruguðs) og ætlaði að finna út einhverjar fræðilegar tengingar á milli sýru og getu... nei, sýru og mætingu... eða, nei, bíðið mætingu og getu? Æj, ég er ekki nógu gáfuð fyrir svona vísindahjal. En svo það sé alveg á hreinu, þá var þetta kladdatal ekkert djók sko, Hvíti-K var egsjölli með kladda á fimmtó! .... bara svona svo fólk haldi að ég sé ekki alveg eins og kú inn í hól.

Æfingin fór prýðilega fram. Hvíti-K vildi leggja Grafarvogslendur að velli og var það samþykkt einróma. Höskuldur sagði Stuttbuxna-Reyni frægðarsögur af sér á hreindýraveiðum. Frásögn hans var svo glæsilega og hetjulega fram sett að aumingja Stuttbuxna-Reynir mátti muna fífil sinn fegurri. Hann átti ekkert mont-svar. Ekki neitt. Hann gat ekki einu sinni montað sig af því að hafa veitt lax í tjörninni. Hans eina montsaga var á þá leið að hann flaut á fleka á Rauðavatni í den og veiddi síli með sigti móður sinnar úr eldhúsinu ....... ergo, þyrlureddarinn Landhelgis-Höskuldur var tööööluvert meira kúl en Stuttbuxna-Reynir í dag. Sorrí Reynir, þú kemur sterkari inn næst.

Eva elding mátti líka muna sinn fífil fegurri í Grafarholtsbrekkunni ógurlegu sem við Reynir nörruðum hana í .... hún var víst ekkert sérlega ánægð með þessa ráðstöfun þó hún hafi nú ekki kvartað í brekkunni sjálfri. Vísa ég í athugasemd hennar á hlaupadagbóksfærslu minni þessa dags. Þar stendur svart á hvítu


Er næstum búin að fyrirgefa ykkur Reyni að hafa dregið mig upp þessa neverending-golfvallar-hryllings-brekku...! Eina ástæða þess að ég kláraði hana var svo að ég gæti náð ykkur og tekið í lurginn á ykkur... en það var engin orka eftir til þess þegar upp var komið“

Ansi sluppum við Stuttbuxna-Reynir vel í dag – jéraðseiíjaykkurða, það vill enginn verða laminn í skran og klessu af Evu. Hún á mótorhjól..... og væntanlega leðurföt. Best að halda sig á mottunni í nærveru hennar.... þess má svo geta að ástand mitt var ekki beysið eftir þetta brekkutrítl. Hjartað var lamað af álagi eftir að hafa pumpað mig upp þennan 70% halla í 10 mínútur.

Annars fékk ég ábendingu á smettisflettunni fyrr í dag frá með-annálsritara mínum, spéfuglinum Crossfit-Alberti! Ég leyfi honum jafnframt að eiga síðustu orð þessa bloggs:

Kæra Fraulein Helga. Í ljósi þess að þú hefur tekið fram svipuna og stórbætt mætingu Afreksmeðlima á æfingar þá finnst mér viðeigandi að þú mætir í þessum búningi næst. Svo sé ég Hvíta-Kenýa fyrir mér sem Herr Flick með kladdann tilbúinn. :)

Með vinsemd og virðingu,
Holy T