Er hátíðarsamviskubitið að naga ? Áramótaheit strengd ? Lokkaði styrktarþjálfarinn ?
Væntanlega sambland af öllu þrennu og jafnvel fleiru, því það var metmæting á sprettæfingu Afrekshópsins í Frjálsíþróttahöllinni í gær. Þrjátíuogfjögur stykki, ef skrifari taldi rétt, af fögrum limaburði á hlaupabrautinni takk fyrir.
Létt og stutt æfing á dagskránni fyrir þá sem ætluðu í styrktartímann á eftir hlaupunum eða 10x200m, reyndar með extra hraðaaukningum og fótaburðardrillum á undan. 20 sprettir fyrir þá sem ekki þáðu styrktaræfingarnar.
Sprettgleðin gerði 10 hringina ekkert of auðvelda en það er nú bara þannig...
Svo kom loks að því sem beðið hefur verið eftir í heilan mánuð. Hópurinn hefur ráðið sér sérstakan styrktarþjálfara til að taka á okkur vikulega í janúar með áherslu á fóta- og kjarnaæfingar sérmiðaðar fyrir hlaupara.
Tutttuguogfjögur þáðu viðbótina og voru mætt í hornið til þjálfarans á slaginu sjö með eftirvæntinguna skínandi úr hverju andliti. Hópnum var skipt í fernt og teknar æfingar með stöðvafyrirkomulagi. Röggsemi og leiðtogagen sumra komu í ljós þegar einn í hverjum hópi leiddi eina æfinguna með taktvissum skipunum.
Sælugrettin og rauðþrútin vellíðunarandlit geisluðu eftir tímann og hlakka strax til næsta þriðjudags.
No comments:
Post a Comment