Mættir: Bilað margir
Staður: Laugardalshöll
Stund: Rétt fyrir kvöldmat
Það var heldur betur fjölmenni á Afreksæfing í gærkvöldi. Afrekshópsmeðlimir auk sjaldséðinna hvítra hrafna voru mættir. Undirrituð sá ekki betur en tilhlökkunarglampi og vonarneisti um stjörnum prýddan hlaupaárangur á nýju ári hafi glampað í augum sérhvers hlaupara. Allir voru til í tuskið. Til marks um það hentu allir sér út í frostgaddinn úti við án þess að blikna. Enginn vældi. Þó minntist fólk rétt aðeins á kulda þegar inn var komið, en ekkert af því flokkaðist undir væl.
Við tóku teygjur á mælikvarða atvinnumanna, vel útpældar hraðaaukningar og svo tók lærifaðir okkar til máls. Daníel Smári útlistaði æfingu dagsins; 6 – 8 x 600 mtr sprettir á svo gott sem fullu gasi og svo 4urra mínútna hvíld á milli. Það var ekki að sjá að jólasteikur og konfektmolar hafi tekið of mikið pláss í spengilegum Afrekskroppum því hraðinn var geigvænlegur. Þorbergur Ingi fölnaði á brautinni við hlið hraðskreiðra Afrekshópshlaupara........
Eftir mikil átök, blóð, svita og gubb í hálsi var tími kominn á smá niðurskokk, teygjur og svo heimför.
Það er morgunljóst að Afrekshópur mun slá í gegn á þessu ári.
Með vinsemd og virðingu,
Helga Þóra
No comments:
Post a Comment