Það er ekki hægt að segja það hafi verið kjöraðstæður til hlaupa síðastliðinn laugardag. Manndrápshálir og blautir svellbunkar lágu eins og mari yfir allri Reykjavík. ..... og sirkabát 15 sandkorn sem búið var að dreifa til að sporna gegn hálkuslysum. Sérdeilis ekki gott fyrir gormalausa hlaupara. Hlauparar vopnaðir gormum og göddum voru hins vegar í betri málum.
Hinn glæsilegi Afrekshópur hittist við höfuðstöðvar Árbæjarskokks kl. 8:30. Menn voru almennt hressir. Enginn var þó hressari en Reynir sem átti afmæli þennan dag. Ég veit ekki hver fékk þá „frrrráááábæru“ hugmynd um að mynda hring og syngja eins og krúttlegir leikskólakrakar ...... en leikar fóru a.m.k þannig að allir mynduðum hring, þar sem Reynir stóð umkomulaus í spandexinu í miðjunni, og hópurinn söng fyrir hann afmælissönginn. Fegurri söngur hefur ekki ómað í höfuðstöðvum Árbæjarskokks. Þeir mega alveg passa sig, Árbæjarskokkshlauparar, því Afrekskórinn er á barmi heimsfrægðar (á bílastæðinu við Árbæjarlaug) eftir þennan ómfagra söng. Reynir fékk meira að segja gæsahúð við það eitt að hlusta á þessar englaraddir .... það er orðið á götunni.
Jæja, eftir að hafa heiðrað Reyni meira en góðu hófu gegnir var lagt í hann. Þetta gekk vel fyrsta 1,6 km en eftir það var öll von úti gorma-og gaddalausu hlauparana mínus Reyni. Hann er í einhverjum súpermanhálkuafreksmannaliði sem kann þá list að hlaupa á blautum hálkubunkum án aðstoðar. Við Beta Brons höfum ekki fengið aðgengi að því teymi því vorum skildar eftir í svellbunka brekku sem var ca með 2% halla. Stóðum þar eins og beljur á svelli og gátum okkur hvergi hreyft.
45 mínútum síðar náðum við að klöngrast upp þessa brekku.... og héldum för okkar áfram í ca 7 mínútur en þá náði Beta að hrynja niður í heimsins stærsta drullupoll sem varð á vegi okkar þann daginn. Við ákváðum því að halda „heim“ á leið og kalla þetta dag því við vildum jú halda lífi og limum.
Liðsfélagar okkar, sem skildu okkur einar og umkomulausar eftir, eru einir til frásagnar um hvað gerðist hjá þeim. Heimildir hlaup.com herma þó að flestir hafi hlaupið 12-16 km án þess að slasa sig. Vel gert!
Annars er árshátíð 4. febrúar. Eru ekki allir byrjaðir í spray tani, farnir að hlaða byssurnar og drekka Núpó Létt til að líta sem best út í hátíðarklæðnaðinum? Það er sko skylda að það sjáist í six-pakkið! Nema hjá ritara, sorrí. Hann er kúlusúkk. Þaðheldégnú.
Með vinsemd og virðingu,
HT Johnson
No comments:
Post a Comment