Friday, January 20, 2012

Hraðamet og mætingamet

Það var í sakleysi mínu sem ég mætti á hefðbundna þriðjudagsæfingu með hópnum. Nú átti sko aldeilis að þreyta eins og eina sveitta sprettæfingu á brautinni alræmdu.
Það vildi til þennan dag að ég var sein fyrir um heilar fimm mínútur. Ég var nú ekki að stressa mig á að missa af hópnum því þegar ég mæti á venjulegum tíma er ALDREI lagt af stað fyrr en sirkabát 5-7 mínútum eftir niðurnegldan brottfarartíma.

....ég hoppaði út úr bílnum, trítlaði að höllinni...... og í því kemur hópurinn.... nei, við skulum ekki nota orðið hópur ..... í því kemur RISAmannmergðshjörðin, sem ber nafnið Afrekshópur! Boj ó boj! Bílaplanið nötraði undan þessum fjölda! Ný smetti, Grindarvíkursmetti auk þeirrar ánægjulegu staðreyndar að tjah, allir voru mættir olli þessum fjölda.... tja, það voru allir mættir nema hraðakóngurinn sjálfur, Höskuldur. Hann var löglega afsakaður við þyrluredd í Noregi. Hann má samt alveg fara að koma heim bara, er maður eitthvað lengi að redda einni þyrlu yfir hafið?
Eftir hefðbundinn upphitunarhring úti við taldi ég nauðsynlegt að skrásetja þennan metfjölda á æfingu. Ég kallaði talningamenn mína á fund og bað þá vinsamlegast að telja Afrekskvikindin. Niðurstaðan - 40 stykki. Það var og. Þetta var ekkert grín. Það þurfti að kalla á umferðarlögreglu til að stýra umferðinni á brautinni ......  BootCamp-Bjössi hætti meira að segja að spretta, áður en kvótinn var fylltur, til að létta álagið á brautinni og Laddi gerði sér upp magaónot og tók færri spretti. Allt okkur hinum til hagsbóta og yndisauka!

Hér má sjá hópinn

 

Fólk var að velta fyrir sér þessari ævintýralega góðu mætingu. Það komu ýmsar tilgátur upp á yfirborðið eins og til dæmis að menn væru að tryggja að þeir væru gjaldgengir á mestu árshátíð sem fram hefur farið í þessari vetrarbraut; Árshátíð Afrekshópsins 2012. Hún verður víst legendary, það er orðið á götunni. Stjórnin kvittar undir þann orðróm án þess að blikna veit ég.
Nú, sumir vildu meina að fólk væri að sækjast eftir því að lenda í bloggklónum hjá mér og öðlast þannig frægð um víðan völl. Ég get nú alveg játað að sú tilgáta kemur afskaplega sterk inn enda er þessi vefsíða svo mikið lesin að ég á erfitt með að fara út í kjörbúð án þess að vera stoppuð ca 11 sinnum til að gefa eiginhandaráritanir. Fleiri tilgátur voru ekki ræddar að svo komnu máli.

Æfingin sjálf reyndi virkilega á Afrekshópsmeðlimi. Meistari okkar sá til þess að hver og einn einast Afrekshlaupari fór heim með gallsúra og þreytta fætur, 2 kg léttari vegna svitaútláts en með bros á vör eftir erfiða æfingu.

Ég mætti ekki á æfingu í kvöld vegna ... tja, aþþíbara. Aðrir eru til vitnis um þá æfingu. Megi þeir láta ljós sitt skína skært á þessari síðu um þá kvöldstund.

Með vinsemd og virðingu,
HT Johnson

1 comment:

  1. Helga klikkar ekki á blogginu!!! Frábær æfing hlakka til að mæta á næstu!! :-D

    ReplyDelete